Sannleikur um sykur

Sykur, sykur, sykur, allir þekkja sykurinn og flestum finnst okkar sykur mjög góður, annars væri ekki verið að troða honum í allar mögulegar matvörur.  „En oft er flagð undir fögru skinni“ eins og sagt er og það á svo sannarlega við um sykurinn. Sykur hefur ekkert næringargildi fyrir líkamann, það er að segja hann inniheldur engin steinefni, vítamín, trefjar eða neitt af þeim næringarefnum sem eru okkur lífsnauðsynleg. 

Sykur hefur margþætt áhrif á heilsuna og ég ætla að stikla á stóru um helstu þætti þess. Kolvetni getum við flokkað sem einföld eða flókin, og meginmunurinn er sá að einföld kolvetni hækka blóðsykurinn hratt og mikið sem leiðir af sér að hann lækkar í kjölfarið mjög snögglega, mikil og stór stökk í blóðsykri er eitthvað sem við viljum forðast. Við viljum neyta kolvetna sem meltast hægar og nýtast líkamanum betur sem orka. Einföld kolvetni virka eins og hvati á insúlínframleiðslu sem leiðir af sér að líkaminn fer að geyma orku í formi fitu. Mikil sykurneysla getur einnig valdið insúlínóþoli sem veldur sykursýki 2 eða áunnin sykursýki.

Sykur er byggður upp af 2 einsykrum, glúkósa og frúktósa. Glúkósinn nýtist öllum frumum líkamans sem orkugjafi en lifrin er eina líffærið sem getur unnið úr frúktósa þannig að þegar við yfirkeyrum lifrina með sykuráti bregst lifrin við með því að breyta umframmagni frúktósa í fitu. Einföld kolvetni eins og sykur meltast hratt og hafa lítið næringargildi fyrir líkamann og veita litla seddutilfinningu sem veldur því að við borðum meira og förum mjög auðveldlega langt fram yfir það magn kaloría sem við nýtum yfir daginn.

Sykurneysla getur líka haft áhrif á svefn því sykur inniheldur mikla orku og er ávanabindandi. Svefn er okkur mjög mikilvægur og sykurneysla á kvöldin getur hreinlega eyðilagt góðan nætursvefn og komið okkur í hættulegann vítahring. Ef við neytum sykurs og fyllum líkamann af orku seinnipart dags eða á kvöldin þegar líkaminn á með réttu að vera keyra sig niður og búa sig undir hvíld, röskum við þessu jafnvægi og fáum þar af leiðandi verri svefn eða sofnum seint og illa. Hvað gerist svo þegar við erum þreytt, illa sofin og vantar orku, jú við leytum auðvitað í orku, líkaminn kallar á þessa sætu auðfengnu orku og við höldum vítahringnum gangandi. 

Með skilningi kemur vilji, með vilja koma breytingar. Við viljum að þið hugsið aðeins út í þetta og skoðið innihaldslýsingar því það er ótrúlega margt, meira að segja vörur sem auglýstar eru sem heilsuvörur, þar sem sykri er troðið í til að bragðbæta.  Við viljum að þið dragið verulega úr sykurneyslu, fyrir ykkar eigin heilsu og fjölskyldur ykkar, borðið minna af unnum matvörum og hugsið meira út í hvað er „hreinn“ matur.

Að lokum vil ég tala lítillega um ávexti, þeir innihalda frúktósa en eru samt hollir. Allt ofantalið á ekki við um ávexti, þeir innihalda jú frúktósa en þeir gera það í mun minni skömmtum. Ávextir eru hrein fæða því þeir eru trejaríkir, innihalda mikið magn vítamína og eru hitaeiningasnauðir.  Ávextir eru hollir, hvítur viðbættur sykur er slæmur. Og djöfullinn gengur undir ýmsum nöfnum þannig að verið vakandi fyrir þeim, þetta er ekki tæmandi listi en nokkur þau helstu eru: granulated white sugar, high-fructose corn syrup, flest nöfn sem innihalda orðið syrup, molasses, sucrose, fructose og svo mætti lengi telja…

Verið vakandi, skoðið innihaldið og borðið hreint.

Leave a Comment

Your email address will not be published.